Panda 4.0

Nýverið sendi Google frá sér uppfærsluna Panda 4.0 sem ætlað er að bæta til muna leitarniðurstöður og fækka svokölluðum „spam“-síðum. Með tilkomu þessarar uppfærslu eykst þörfin á leitarvélabestun því enn meiri áhersla en áður er lögð á efni á hverri síðu fyrir sig, einkum frumsamið, þ.e. efni sem ekki er þegar til annars staðar. Efni sem flokkað er sem frumsamið getur þó upp að vissu marki verið byggt á efni annars staðar frá. Einnig hefur verið dregið úr vægi tengla sem vísa í efni annars staðar. Þá er uppfærslunni ætlað að takast á við það sem Google nefnir „þunnt“ efni, þ.e. illa skrifað efni sem inniheldur miklar endurtekningar.

Helst verður breytinganna vart hjá síðum á borð við fréttasíður, sem nýta gjarnan efni hvor frá annarri og birta með smávægilegum breytingum, og hjá tenglabönkum sem gegna fyrst og fremst því hlutverki að flokka og halda utan um tengla. Má þar nefna vefi sem safna upplýsingum um veitingastaði, sundstaði eða aðra afþreyingu (nema efnið sé vistað á viðkomandi vef og hann innihaldi einnig frumsamið efni). Vefir sem innihalda upplýsingar um vörur, verð og/eða gagnrýni og umsagnir um viðkomandi hluti styrkja hins vegar stöðu sína.

Það má því til sanns vegar færa að eftir tilkomu Panda 4.0 sé mikilvægara en nokkru sinni áður að leitarvélabestun, textaskrif og prófarkalestur séu í höndum fagfólks.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT