Tveir nýir starfsmenn og skrifstofa að Síðumúla

Um mánaðamótin febrúar-mars hófu tveir nýir starfsmenn störf hjá okkur í Vefþjónustunni, þeir Árni Björn Gestsson og Jón Hjörtur Sigurðarson, sjá má nánari kynningu á þeim hér fyrir neðan.
Samhliða því höfum við opnað nýja skrifstofu að Síðumúla 28 í Reykjavík (aldrei kallað annað en HeimaSíðumúli hjá okkur) þar sem Jón og Árni munu hafa aðstöðu.

Við munum áfram vera með skrifstofu á Selfossi en verðum ekki lengur til húsa að Austurvegi 9. Þegar þetta er skrifað erum við ekki búnir að koma okkur fyrir í nýju húsnæði en við munum birta tilkynningu um það á heimasíðunni okkar þegar það húsnæði er tilbúið. Grétar Magnússon mun áfram vera með viðveru á Selfossi en verður einnig einhverja daga í Reykjavík.
Með þessum breytingum sjáum við fram á að geta boðið viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu hvað varðar vefina þeirra, má þar meðal annars nefna:

Leitarvélarbestun (e. SEO):
Það er margt sem hefur áhrif á hvernig þú kemur upp í leit á leitarvélum. Til þess að leit skili þér sem efst í niðurstöðum, þarf heimasíðan þín að vera rétt uppbyggð og tilbúin fyrir leitarvélar. Um er að ræða góða fjárfestingu fyrir íslensk fyrirtæki í ljósi þess að oft á tíðum er lítið um samkeppnisaðila sem gerir auðveldara um vik að komast ofarlega í leitarniðurstöðum.

Auglýsingar á Google (greitt fyrir hvern smell e. Pay per click):
Við veitum ráðleggingar varðandi auglýsingar á Google. Hægt er að mæla hversu oft auglýsing er skoðuð og með því að greina niðurstöður mælinganna getum við á auðveldan hátt hámarkað þann hagnað sem fæst fyrir hverja auglýsingu. Auglýsingar á Google eru klárlega ein besta fjárfesting sem fyrirtæki geta gert.

Vefgreining:
Við bjóðum upp á að yfirfara heimasíðuna þína, greina hana gaumgæfilega og benda loks á hvað má betur fara. Þetta er gert með leitarvélar og markaðssetningu í huga en einnig svo að vefurinn komi betur fyrir sjónir þeirra sem heimsækja heimasíðuna þína. Það er nefnilega þannig í pottinn búið að fyrstu kynni væntanlegra viðskiptavina eru að öllum líkindum heimasíðan sem þú hefur upp á að bjóða.

Hér fyrir neðan má svo lesa stutta kynningu um nýju starfsmennina okkar.

Árni Björn Gestsson er 24 ára gamall Akureyringur. Hann er yngstur af þremur bræðrum og næst yngstur innan fyrirtækisins. Sumarið 2012 útskrifaðist hann úr HR með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði. Fjórum árum áður hafði hann útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri. Hvoru tveggja var mikið fjör en eftir þessa skólagöngu þá stóð hann, að eigin sögn, ekki uppi tröllgáfaður, en þó heldur ekki sem afglapi. Betur má ef duga skal og ákvað hann því eftir háskólanámið að hefja störf hjá Vefþjónustunni og víkka hug sinn til muna. Með hafsjó af hæfileikum er hann hingað kominn til að standa sig með stakri prýði og bregðast ekki því trausti sem honum hefur verið sýnt. Hann tekur hverjum degi fagnandi í leit að fróðleik og stefnir alltaf, eða yfirleitt, að því að sofna að kvöldi sem betri maður. Lífsmottó: Með hækkandi sól hósta menn minna og minna.
Árni er með netfangið arni@vefthjonustan.is og símanúmerið hans er 512-4601.

Jón Hjörtur Sigurðarson er orkumikill drengur með hausinn rétt skrúfaðan á. Einnig vill svo skemmtilega til að hann á sama afmælisdag og Höskuldur, annar eigenda fyrirtækisins og því má segja að hann hafi verið sjálfráðinn um leið og hann sótti um starf sölufulltrúa. Segja má að hann sjái vefsíður ekki eins og flestir aðrir því það fyrsta sem hann gerir þegar hann skoðar vefi er að greina hvað má betur fara og er hann ekkert að skafa af því ef honum finnst ekki vandað til verka.
Áhugi hans liggur í nær öllu sem tengist tækjum og tólum og mannlegum samskiptum og hefur hann menntað sig sem kerfisstjóri (MCITP), setið ófá Dale Carnegie námskeið og stúderað NLP svo eitthvað sé nefnt.
Jón hefur mikla þekkingu á leitarvélarbestun á vefsíðum, netmarkaðssetningu, sölu á Internetinu, ljósmyndun og myndvinnslu og kemur hann til með að veita ráðgjöf til viðskiptavina í þessum málum ásamt því að sinna starfi sölufulltrúa.
Jón er með netfangið jonhjortur@vefthjonustan.is og símanúmerið 512-4602.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT