WordPress útgáfa 3.9 er komin út

Þann 16. apríl síðastliðinn kom út ný uppfærsla af WordPress-stýrikerfinu, WordPress 3.9, og nefnist hún „Smith“ í höfuðið á jazzgoðsögninni Jimmy Smith. Síðasta uppfærsla á kerfinu, 3.8, fól meðal annars í sér endurhannað notendaviðmót sem státaði af breyttu og bættu notendaumhverfi. Með nýju uppfærslunni fylgja margar umbætur og ýmsir nýir eiginleikar. Útlitið var lítið tekið fyrir í þetta skiptið enda var farið í gegnum umfangsmiklar útlitsbreytingar síðast.

Helstu breytingar eru þær að innbyggður textaritill í kerfinu var tekinn umtalsvert í gegn. Breytingarnar fela meðal annars í sér draga og sleppa(e. drag and drop) möguleika á ljósmyndum sem hefur ekki verið til staðar áður. Þetta er kærkomin breyting því oft og tíðum hefur vöntun á þessum möguleika verið uppspretta margra vandamála hjá viðskiptavinum okkar. Einnig er hægt að meðhöndla ljósmyndir á nýjan hátt og nú beint inni í textaritlinum sjálfum. Ennfremur er nú hægt að setja inn hljóðskrár með góðu móti og er það kerfi byggt upp á svipaðan máta og gagnavarsla ljósmynda. 

Viðskiptavinir okkar ættu að verða varir við tilkynningu um uppfærslu í sínum kerfum og þegar uppfærslu er lokið ættu þeir sjá helstu breytingar. Það er ljóst að sumarið er komið í WordPress-heiminum og nú má það sömuleiðis fara að gera vart við sig hér á okkar ástkæru eyju.

Fleiri smávægilegar tilfærslur hafa verið gerðar en óþarfi er að fara yfir þær allar. Þetta kemur fram 16. apríl sl. á vefnum wordpress.org.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT