WordPress útgáfa 4.0 er komin út

Löng var biðin eftir útgáfu 4.o og er viðeigandi að hún komi út fjórum árum eftir útgáfu 3.0. Á þessu fjögurra ára tímabili hefur vefumsjónarkerfið fest sig vel í sessi sem eitt allra vinsælasta kerfi sinnar tegundar í heiminum. Í þessari útgáfu voru nokkrir þættir teknir fyrir sem þurfti að bæta frá síðustu útgáfu, útgáfu 3.9, sem kom út í apríl síðastliðnum.

Ekki er það síður viðeigandi að þessi nýjasta uppfærsla WordPress-stýrikerfisins kom út 4. september. Hún er nefnd „Benny“ í höfuðið á jazzgoðsögninni Benny Goodman sem jafnan er kallaður „King of Swing“, eða „Konungur sveiflunnar“, þótt varast skuli að rugla honum saman við hinn eina sanna sveiflukóng, hinn skagfirska Geirmund Valtýsson. Hvort Geirmundur eigi eftir að fá WordPress-uppfærslu nefnda í höfuðið á sér skal þó ósagt látið. Með nýju uppfærslunni fylgja margar umbætur og ýmsir nýir eiginleikar. Útlitið var lítið tekið fyrir í þetta sinn enda var farið í umfangsmiklar útlitsbreytingar í útgáfu 3.8.

Helstu breytingar eru þær að loksins er búið að setja upp viðbótavafra (e. plugin browser). Það mun gera notendum mun auðveldara fyrir að leita að og finna réttu viðbótina. Með nýju uppfærslunni er einnig handhægara að setja inn kóða frá vefsíðum á borð við Twitter og YouTube. Allar slóðir frá þessum vefsíðum eru sjálfkrafa settar upp á staðlaðan og snyrtilegan hátt. Enn fremur hefur ritþórinn verið gerður notendavænni í heild sinni ásamt gagnasafnskerfinu.

„Nú er ég léttur“ söng sveiflukóngurinn skagfirski svo hnjáliðir íslenskra yngismeyja kiknuðu og það er jafn víst að þessi lauflétta uppfærsla kemur til með að bræða hjörtu WordPress-notenda um víða veröld. Viðskiptavinir okkar ættu að verða varir við tilkynningu um uppfærslu í kerfi sínu og þegar uppfærslu er lokið ættu þeir sjá helstu breytingar. Ekki þarf að velkjast í vafa um að þessi uppfærsla á WordPress-kerfinu eigi eftir að ylja notendum sínum á þeim dimmu vetrarkvöldum sem senn ganga í garð.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT