Hvað einkenndi síðasta ár á sviði leitarvéla og vefsíðugerðar?

Eftirfarandi kemur þeim vísast kunnuglega fyrir sjónir sem unnið hafa á þessu sviði, hafa endurnýjað vefsvæði sitt, ráðist í leitarvélabestun eða ýtt úr vör PPC-herferð. Þrátt fyrir það er ekki úr vegi að leiða aðeins hugann að þeim breytingum sem orðið hafa á vettvangi leitarvéla og vefsíðugerðar undanfarið ár eða svo.

Byrjum á vefsíðugerðinni. Undanfarin ár hefur opinn hugbúnaður rutt sér mjög til rúms, ekki síst á sviði vefsíðugerðar, en til marks um það má nefna að vefumsjónarkerfi á borð við Joomla, WordPress og Drupal hljóma orðið kunnuglega í eyrum flestra. Nokkrum stórum og mikilvægum vefjum hefur verið hleypt af stokkunum og fyrir vikið hefur farið meira fyrir þessari þróun hér á Íslandi en ella hefði orðið. Meðal annars réðist Reykjavíkurborg í að hreinsa til á vef sínum og gera hann skilvirkari og notendavænni. Mjög vel tókst til við þetta og eru allir sem ekki hafa skoðað nýja vefinn hvattir til að gefa sér tíma til þess. Þá hefur sveitarfélagið Árborg einnig nýtt sér opinn hugbúnað og keyrt á WordPress um hríð með góðum árangri. Farsímavefir hafa verið útfærðir með nýjum hætti þar sem sérstakar farsímaútgáfur hafa vikið fyrir gagnvirkum vefjum sem laga sig að skjástærð tækisins sem þeir eru opnaðir í. Með því móti getur vefur litið rétt út jafnt á stórum tölvuskjá sem í litlum farsíma.

Víkur þá sögunni að leitarvélum. Af mörgu er að taka á þeim vettvangi en ætla má að Hummingbird-uppfærsluna beri þar hæst. Með tilkomu hennar jókst „skilningur“ Google á leitarorðum en af því leiðir að leitarniðurstöður urðu nákvæmari. Sé til dæmis leitað að „verslun sem selur iPhone“ nýtir leitarvélin sér staðsetningu þess sem leitar og finnur verslanir í nágrenninu. Fyrir fyrirtæki fylgir þessu aukin krafa um að skrá sig í Google Maps og Google Plus, en því meiri upplýsingar sem gefnar eru upp um fyrirtækið og staðsetningu þess, því meira er birt í leitarniðurstöðum. Sú breyting hefur einnig orðið á Google að meiri upplýsingar eru nú birtar beint í leitarniðurstöðum, t.d. kort af næsta nágrenni ef við á.

Á meðal annarra breytinga sem orðið hafa má nefna nýja eiginleika sem skila nákvæmari mælingum í Google Analytics og Google Webmaster Tools. Sá galli er þó enn á Google Webmaster Tools að síður eru ekki skoðaðar reglulega. Það þýðir að langur tími getur liðið frá því síða er lagfærð þangað til hún birtist. Eins er ekki hægt að sjá hvað betur má fara eða þarfnast lagfæringar við þar fyrr en síðan hefur verið yfirfarin en þá tekur aftur við bið þar til árangurinn af leitarvélabestun fer að segja til sín. En meira um það síðar.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT