Texti fyrir leitarvélar

Leitarvélar geta lesið texta nákvæmlega, séð samhengið í honum og þannig greint um hvað vefsíðan er. Þó er mikilvægt er að hafa í huga að notendur lesa líka textann og hann er auðvitað fyrst og fremst ætlaður þeim. Því má ekki slaka á gæðakröfum og læsileika textans þó að hann sé skrifaður með leitarvélar í huga.

Nokkur atriði þarf að hafa í huga þegar texti er skrifaður fyrir leitarvélabestun. Til dæmis þarf að sníða textann að þeim orðum eða hugtökum sem  við viljum að síðan finnist undir.  Hér er ýmist um að ræða stök orð eða heilar setningar.  Gerður er listi yfir öll þau orð og hugtök sem leggja skal áherslu á og þurfa þessi orð að koma sem oftast fyrir í textanum.

Best er að í hverjum 3-400 orðum komi lykilorðin fyrir þrisvar til fjórum sinnum. Þannig má segja að fyrir hver 100-150 orð sem skrifuð eru þurfi leitarorðið að koma fyrir einu sinni til tvisvar. Þetta hjálpar leitarvélunum að greina mikilvægi og skírskotun síðunnar. Eins og áður sagði þarf að hafa í huga að textinn hefur ekki einungis þann tilgang að henta leitarvélum. Er til að mynda verið að skrifa sölutexta,  kynningartexta eða jafnvel bara upplýsingar? Áherslurnar í textanum þurfa að vera réttar, auk þess sem hafa þarf leitarorðin og samhengið í huga. Ef eitt þessara þriggja atriða er í ólagi – leitarorð, samhengi eða áherslur – getur það bitnað á því hvernig leitarvélarnar greina síðuna.

Ef mikinn upplýsingatexta er að finna á sölusíðu er hætta á leitarvélarnar skilgreini hana sem upplýsingasíðu og hún komi því síður upp í leit sem beinist að því að finna sölusíður.

Langur texti er ekki æskilegur. Betra er að brjóta efnið niður í fjóra stutta texta fremur en birta einn langan til að hjálpa leitarvélum að meta hverju síðan tengist og um hvað hún er. Hægt er að setja stuttu textana á mismunandi staði eða box á síðunni til að hjálpa leitarvélum að skilja að tilteknir tveir textar séu ekki um sama efni þótt þeir hafi sömu skírskotun. Sem dæmi er hægt að taka ljósmyndaverslun sem selur bæði notaðar og nýjar myndavélar. Þar eiga upplýsingarnar um þetta tvennt eiga ekki heima í sama textaboxinu, heldur er kjörið að skrifa annars vegar texta um nýjar myndavélar og hins vegar texta um kosti þess að kaupa notaða vél. Hjá leitarvélum vega upphaf og endir textans þyngra en meginmálið, enda er algengast að lesandinn fari beint í það efni sem hann leitar eftir, auk þess sem hægt er að meta hvort textinn fjalli raunverulega um það sem upphafið gefur til kynna út frá því hvernig hann endar. Hafa þarf í huga að nota ekki upphrópunarmerki eða spurningarmerki með lykilorðum og lykilhugtökum.

FLEIRI FRÉTTIR OG GREINAR

LEIT